Fánýtur fróðleikur vikunnar

Hátt verð

Nýja kokkteilinn frá Króatíu  er einungis hægt að blanda í frjálsu falli úr 3.000 metra hæð. Barþjónninn fer í heljastökk og dýfur og  The wings of zadar-kokkteillinn hristist vel á leiðinni. Ískalt loftið sér til þess að kæla drykkinn, sem síðan er borinn fram skömmu eftir lendingu. Verðið á blöndunni er frekar hátt.

Regnguðinn

Kínversk yfirvöld hafa í hyggju að stjórna veðrinu! Veðurskiptastofnun Pekingborgar notar alls kyns tæki og tól, svo sem eldflaugar, til að kalla fram regn og koma í veg fyrir þurrka í landbúnaðarhéruðum. Þar á bæ reyndu menn einnig að tryggja heiðskíran himinn yfir Ólympíuleikunum 2008 með því að rannsaka áhrif þess að skjóta vissum efnum í ský með loftvarnarbyssum.


Endurvinnsla

Margir á Íslandi eru byrjaðir að endurvinna og líka mjög margir komnir með endurvinnslutunnur en samt ekki allir. Það rusl sem er almennt flokkað eru fernur, venjulegt rusl, pappír, pappi og fleira. 

Í skólanum okkar er flokkað og hér eru flokkaðar fernur og pappír frá venjulegu rusli. Fernurnar eru oftast brotnar saman og settar í sér tunnu og pappír í sérstakan kassa við hliðina á almenna ruslinu.

Það voru margir sem áttu erfitt með að muna þetta í skólanum, kannski helst í unglingadeildinni, en það er allt að koma hjá þeim. 

Á venjulegum heimilum á Blönduósi eru mjög margir sem flokka og fara svo bara með það út í endurvinnslutunnu en aðrir sem flokka fara með fernur og fleira sjálfir upp á ruslahauga í sérstaka gáma sem þar eru.

Ég tók viðtal við Vilhelm Harðarsson hjá Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar ehf. og spurði hann örfárra spurninga og þar á meðal hversu margir væru komnir með endurvinnslutunnur hér á Blönduósi. Hann sagði að það væru svona um það bil 40-50 komnir með tunnur. Hann sagði mér líka að það kosti ekki mikið að vera með tunnu, heldur bara um 500 krónur á mánuði, og að tunnurnar eru losaðar einu sinni í mánuði.  Vilhelm vonast til þess að flokkunarstöðin verði tilbúin fyrir áramót svo hægt verði að fara að flokka allt ruslið almennilega.

Íris Emma, 9. bekk


Í fyrsta bekk

Það vita allir hvað það getur verið spennandi að byrja í skóla. Ég (Birta) Guðbjörg og Dagbjört tókum viðtöl við þrjá nemendur úr fyrsta bekk til að heyra hvað þeim finnst um skólann og námið.

Ég talaði við Hafþór Örn. Ég spurði hann margra spurninga um skólann og hann sjálfan.

Hafþór ÖrnÞegar ég spurði hvort honum fyndist gaman að byrja í skólanum svaraði hann já rosalega gaman síðan spurði ég hann hvort það væri gaman í skólanum og þá svaraði hann já, mjög mikið. Næst spurði ég hann hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór og hann ætlar að verða fótboltamaður. Það sem honum finnst skemmtilegast að gera í skólanum er að vera í frjálsu tímunum. Þegar ég spurði hvað hann héldi að hann yrði mörg ár í skólanum svaraði hann 57 ár.

Uppáhalds kennararnir hans eru Ingunn og Hrefna Teitsd. Næst spurði ég hann hverjir væru uppáhalds tímarnir hans og sagði hann að tölvutímarnir væru bestir. Síðan spurði ég hann hverju hann væri góður í þá svaraði hann ,,Í leikjum, að lesa og skrifa.'' Honum finnst ótrúlega gaman í íþróttum. Hann á eitt systkini í skólanum, Birtu Ósk í 8. bekk. Hafþór vildi að lokum segja okkur að hann á hund, fiska og fugl.

Birta Ósk, 8.bekk

 

Rakel ÝrRAKELRakel finnst gaman að byrja í skóla. Henni þykir mjög gaman í skólanum og þykir frímínúturnar skemmtilegastar. Hana langar til að verða kennari í framtíðinni. Uppáhalds kennarinn hennar heitir Ingunn. Hún á eitt systkini í skólanum, það er hún Dagbjört í 8. bekk. Uppáhalds tímarnir hennar eru matreiðsla og tölvur. Þegar hún er úti í frímínútum þykir henni skemmtilegast að róla, henni þykir einnig mjög gaman í íþróttum. Rakel finnst hún vera best í að reikna og skrifa og ætlar hún að vera 10 ár í þessum skóla og skemmta sér konunglega.

Dagbjört Henný, 8. bekk

Þóra KarenÞóra KarenÞóru Karen finnst gaman að byrja í skóla. Henni þykir mjög gaman í skólanum og skemmtilegast af öllu í frímínútunum. Hana langar að verða klippikona í framtíðinni. Uppáhalds kennarinn hennar heitir Hrefna og er hún umsjónarkennarinn hennar. Hún á fjögur systkini í skólanum sem heita Hrafnhildur, Guðbjörg, Albert Óli og Helga María. Uppáhalds tímininn hennar er íþróttir og henni þykir líka skemmtilegast í íþróttum. Þegar Þóra Karen er útí í frímínútum þykir henni skemmtilegast að að fara í aparóluna á leiksvæðinu. Hún ætlar að vera í skólanum öll 10 árin og hafa gaman að því.Guðbjörg, 10. bekk 

 


Fánýtur fróðleikur vikunnar

Stungumeðferð

Á lækningarstofu í bænum Xi‘an í Shaanx-héraði getur maður fengið óvenjulega meðferð við kvefi. Þar er tveimur býflugum haldið uppi að nefi sjúklingsins þar til þær stinga hann. Eitrið er sagt geta unnið bug á sjúkdómum á borð við mænusigg og gigt.

Dálítið Gallerí

Í Buenos Aires má finna gallerí sem er svo lítið að lofthæðin er aðeins 30 sentímetrar. Gestir verða að stinga höfðinu inn um gat til að skoða.

 Gúmmílíf

Pat og Chuck Potter frá Bancroft í Kanada byggðu sér hús úr 1.200 hjólbörðum og sólarrafhlöður virkja síðan sólarorkuna og sjá þeim fyrir hita.


Samfés á Sauðárkróki

Helgina 2. -4. október fór nemendaráð Grunnskólans á Blönduósi á landsmót SAMFÉS á Sauðárkróki og voru um 300 krakkar af öllu landinu á staðnum.

Lagt var af stað klukkan 17:00 á föstudaginn og haldið beina leið á Sauðárkrók þar sem gist var í Árskóla, þegar þangað var komið fengum við boli og aðgangsarmbönd og komum okkur fyrir.

Næsta morgun var ræs snemma og morgunmatur borðaður og svo haldið í hinar ýmsu smiðjur. Krakkarnir frá Blönduósi voru allir í mismunandi smiðjum og engir saman í hóp því aðal markmið helgarinnar var að kynnast nýju fólki. Einn var í ljósmyndasmiðju, annar í fjölmiðlasmiðju, sá þriðji í skartgripasmiðju og fjórði í blak og sjósundsmiðju og sá síðasti í kokka og þjóna smiðju þar sem allir elduðu og lærðu siði þjóna og kokka.

Á laugardagskvöldið var svo hátíðarkvöldverður og margt í boði og afrakstur úr smiðjunum. Eftir kvöldverðinn var ball og mikið fjör. Eftir ballið var friðarganga niður að höfn þar sem beið okkar brenna og heitt kakó. 

Sunnudagurinn byrjaði svo með því að allir tóku dótið sitt saman og borðuðu morgunmat, því næst tók landsþing við. Þar voru eins konar umræðusmiðjur í þremur lotum. Þar átti maður að sitja í hring og tala um skoðanir sínar á ákveðnu málefni í korter og skipta svo. Eftir þetta var pítsa og svo haldið heim.

Allir komu þreyttir heim ágætlega sáttir við helgina þó hún hafi ekki alveg staðist allar væntingar.

Margrét Hildur


Spurt var

Eins og flest sveitafólk hef ég mjög mikinn áhuga á réttum og ákvað ég að  gera könnun í 7. - 10. bekk í skólanum.

Könnun þessi var þannig að spurt var Fórstu í réttir haustið 2009?  Voru valmöguleikarnir eftirtaldir:

Fór í kindaréttir, Fór í stóðréttir, Fór í báðar, Nei fór ekki í réttir og svo að lokum Hvað er það? - bara upp á gamanið.

Í þessum fjórum bekkjum eru alls 45 nemendur en tveir svöruðu ekki. Alls fóru tuttugu og tveir nemendur bara í kindaréttir, einn fór bara í stóðréttir, sjö fóru bæði í kinda- og stóðréttir. Ellefu nemendur fóru ekki í réttir þetta árið og tveir nemendur svöruðu hvað er það?

Árný Dögg 9. bekk


Valfög

Valfög eru aukafög fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk.

Í lok skólaárs velur maður þau fög sem mann langar í næsta ár, og númerar fögin frá 1-8 eftir því hvað mann langar mest í. Síðan er nemendunum raðað í fögin eftir því. Það er þó samt ekki öruggt hvort að viðkomandi fái það sem hann langar mest í vegna þess að það þurfa að vera nógu margir í faginu og það þarf að vera með nógu margar kennslustundir á viku, a.m.k.  6 kennslustundir á viku að meðaltali. Það má þó vera með meira.

Einnig er hægt að taka tónlistarnám og reiðnámskeið sem valfög. Möguleg valfög í skólanum okkar þetta árið voru bókmenntir og lestur, fjölmiðlafræði, heimilisfræði, íþróttafræði, leiklist, listasmiðja, myndvinnsla, skólahreysti, stærðfræðigrunnur, textílmennt og þýska. 

Sindri Rafn, 10. bekk


Íþróttadagurinn 2009

Íþróttadagurinn var haldinn fimmtudaginn 24. september og byrjaði dagurinn eins og venjulega á Norræna skólahlaupinu. Þar var hlaupið, skokkað eða gengið 2,5 km en svo var óvenjustór hópur nemenda sem ákvað að hlaupa 5 km en það er í boði fyrir nemendur í 5. bekk og eldri.

Eftir það var svo haldið út í íþróttahús þar sem dagskráin var örlítið öðruvísi en venjulega þar sem menntamálaráðherra var að koma í heimsókn. Þannig að byrjað var á kappleikjum á milli bekkja. 1. og 2., og 3. og 4.bekkur kepptu í þrautaboðhlaupi. 5.-7. bekkur kepptu í leiknum "Dodgeball" en það er ein útgáfa af skotaboltaleik með tveimur liðum. 8.-10. bekkur áttust einnig við í þessum leik. Þótti það heldur einkennandi að yngri bekkur skildi vinna þann eldri í öllum þessum leikjum.

Það átti einnig við um viðureign kennaranna á móti tíundu bekkingum í blaki. Máttu kennararnir sitja eftir með sárt ennið eftir að tíundu bekkingar unnu þá 17-21 í æsispennandi leik. Allir nemendur skólans tóku þátt í deginum á einn eða annan hátt og var mikil gleði í gangi.

Þegar þessu öllu var lokið var hafist handa við að setja upp alls kyns stöðvar og gat hver og einn fundið eitthvað við sitt hæfi. Hægt var að fara í klifur, keilu, keppast um hver gæti flogið pappírsskutlu lengst, uppstökkskeppni, pílukast, vítaskot í körfubolta, boccia og einnig var hin sívinsæla fitnessbraut en hún var einungis ætluð 5. bekk og upp úr.

Menntamálaráðherra kom svo klukkan rúmlega ellefu ásamt fylgdarliði frá samtökunum Heimili og skóli og starfsmönnum úr Menntamálaráðuneytinu. Þá mættu þarna líka fræðslustjóri, bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar og fleiri.

Gekk hópurinn um á milli stöðvanna og fékk stutta kynningu á því hvað var í gangi á hverjum stað. Átti þessi hópur svo fund með skólastjórnendum og fræðslustjóra í Kvennaskólanum. Þar var verkefnið „Tökum saman höndum", sem í vor fékk verðlaun Heimila og skóla, kynnt og fengu gestirnir að spyrja þau spjörunum úr um verkefnið.

Samkvæmt Sigríði aðstoðarskólastjóra voru gestirnir mjög áhugasamir og forvitnir um verkefnið.

Var þetta því í alla staði hinn ágætasti dagur.

Margrét Ásgerður 10.bekk


Leiklistarval

Frá árshátíðinni í vor

Leiklistarvalið er eins og undanfarin ár kennt af Jófríði Jónsdóttur og er aðal markmið kennslunnar að nemendur fái þjálfun í að koma fram, gefa þeim sýnishorn af því um hvað leiklist snýst og hafa gaman.

Í viðtali við Jófríði kom fram að ekki er búið að ákveða hvernig árshátíðarleikritið í ár verður en henni sýnist flestir hafi áhuga á söngleik. Leiklistarhópurinn er mjög hæfileikaríkur og segir Jófríður að hægt sé að setja markið hátt. Jólaleikrit er ekkert á dagskránni en ef nemendur leiklistarvalsins hafi áhuga megi auðvitað skoða það.

Jófríður er mjög vongóð um veturinn og hlakkar mikið til komandi leiklistarárs.


Göngur og réttir

Síðustu helgar hafa verið réttir út um allt land.

Eins og vanalega er alltaf byrjað á því að fara í göngur og eru það gangnamenn sem sjá um það. Bændur þurfa oftast að útvega sér gangnamenn og senda þá heimamenn eða bara einhverja sem eru mjög áhugasamir um að fá að fara í göngur.

Oftast er gangnafólkið látið vakna um sex, hálf sjö til að fara og gera hestana klára og sig sjálft því að oft þarf að fara svo langar leiðir að það getur tekið allt að þrjá tíma að komast á áfangastað. Það getur svo tekið allt að þrjá og hálfan ef ekki fjóra tíma að komast í réttirnar með gripina eftir að þeir finnast og þá fyrst er hægt að fara að rétta.

Gangnamenn fá oftast gangnakaffi eftir að niður er komið enda eru þeir orðnir frekar svangir eftir göngurnar.

Þegar það er verið að rétta þarf að þekkja hvert mark og númer bæja er til að geta dregið kindur fyrir bæina.  Oft mætir fullt af fólki til þess að allt gangi fljótt og vel fyrir sig í réttunum.

Nú fer að styttast í að hrossaréttir hefjist í Skrapatungu og þarf ekki að fara í eins strangar göngur og í rolluréttunum en samt eru hrossin rekin og þarf að stoppa til að þau geti andað rólega.

Fjölmargir ferðamenn, innlendir og erlendir mæta í svokallaðar Túristaferðir um Laxárdalinn til að hafa gaman og kynnast íslenska hestinum betur.

Árný Dögg, 9. bekk


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband