Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Spurt var

Eins og flest sveitafólk hef ég mjög mikinn áhuga á réttum og ákvað ég að  gera könnun í 7. - 10. bekk í skólanum.

Könnun þessi var þannig að spurt var Fórstu í réttir haustið 2009?  Voru valmöguleikarnir eftirtaldir:

Fór í kindaréttir, Fór í stóðréttir, Fór í báðar, Nei fór ekki í réttir og svo að lokum Hvað er það? - bara upp á gamanið.

Í þessum fjórum bekkjum eru alls 45 nemendur en tveir svöruðu ekki. Alls fóru tuttugu og tveir nemendur bara í kindaréttir, einn fór bara í stóðréttir, sjö fóru bæði í kinda- og stóðréttir. Ellefu nemendur fóru ekki í réttir þetta árið og tveir nemendur svöruðu hvað er það?

Árný Dögg 9. bekk


Valfög

Valfög eru aukafög fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk.

Í lok skólaárs velur maður þau fög sem mann langar í næsta ár, og númerar fögin frá 1-8 eftir því hvað mann langar mest í. Síðan er nemendunum raðað í fögin eftir því. Það er þó samt ekki öruggt hvort að viðkomandi fái það sem hann langar mest í vegna þess að það þurfa að vera nógu margir í faginu og það þarf að vera með nógu margar kennslustundir á viku, a.m.k.  6 kennslustundir á viku að meðaltali. Það má þó vera með meira.

Einnig er hægt að taka tónlistarnám og reiðnámskeið sem valfög. Möguleg valfög í skólanum okkar þetta árið voru bókmenntir og lestur, fjölmiðlafræði, heimilisfræði, íþróttafræði, leiklist, listasmiðja, myndvinnsla, skólahreysti, stærðfræðigrunnur, textílmennt og þýska. 

Sindri Rafn, 10. bekk


Íþróttadagurinn 2009

Íþróttadagurinn var haldinn fimmtudaginn 24. september og byrjaði dagurinn eins og venjulega á Norræna skólahlaupinu. Þar var hlaupið, skokkað eða gengið 2,5 km en svo var óvenjustór hópur nemenda sem ákvað að hlaupa 5 km en það er í boði fyrir nemendur í 5. bekk og eldri.

Eftir það var svo haldið út í íþróttahús þar sem dagskráin var örlítið öðruvísi en venjulega þar sem menntamálaráðherra var að koma í heimsókn. Þannig að byrjað var á kappleikjum á milli bekkja. 1. og 2., og 3. og 4.bekkur kepptu í þrautaboðhlaupi. 5.-7. bekkur kepptu í leiknum "Dodgeball" en það er ein útgáfa af skotaboltaleik með tveimur liðum. 8.-10. bekkur áttust einnig við í þessum leik. Þótti það heldur einkennandi að yngri bekkur skildi vinna þann eldri í öllum þessum leikjum.

Það átti einnig við um viðureign kennaranna á móti tíundu bekkingum í blaki. Máttu kennararnir sitja eftir með sárt ennið eftir að tíundu bekkingar unnu þá 17-21 í æsispennandi leik. Allir nemendur skólans tóku þátt í deginum á einn eða annan hátt og var mikil gleði í gangi.

Þegar þessu öllu var lokið var hafist handa við að setja upp alls kyns stöðvar og gat hver og einn fundið eitthvað við sitt hæfi. Hægt var að fara í klifur, keilu, keppast um hver gæti flogið pappírsskutlu lengst, uppstökkskeppni, pílukast, vítaskot í körfubolta, boccia og einnig var hin sívinsæla fitnessbraut en hún var einungis ætluð 5. bekk og upp úr.

Menntamálaráðherra kom svo klukkan rúmlega ellefu ásamt fylgdarliði frá samtökunum Heimili og skóli og starfsmönnum úr Menntamálaráðuneytinu. Þá mættu þarna líka fræðslustjóri, bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar og fleiri.

Gekk hópurinn um á milli stöðvanna og fékk stutta kynningu á því hvað var í gangi á hverjum stað. Átti þessi hópur svo fund með skólastjórnendum og fræðslustjóra í Kvennaskólanum. Þar var verkefnið „Tökum saman höndum", sem í vor fékk verðlaun Heimila og skóla, kynnt og fengu gestirnir að spyrja þau spjörunum úr um verkefnið.

Samkvæmt Sigríði aðstoðarskólastjóra voru gestirnir mjög áhugasamir og forvitnir um verkefnið.

Var þetta því í alla staði hinn ágætasti dagur.

Margrét Ásgerður 10.bekk


Leiklistarval

Frá árshátíðinni í vor

Leiklistarvalið er eins og undanfarin ár kennt af Jófríði Jónsdóttur og er aðal markmið kennslunnar að nemendur fái þjálfun í að koma fram, gefa þeim sýnishorn af því um hvað leiklist snýst og hafa gaman.

Í viðtali við Jófríði kom fram að ekki er búið að ákveða hvernig árshátíðarleikritið í ár verður en henni sýnist flestir hafi áhuga á söngleik. Leiklistarhópurinn er mjög hæfileikaríkur og segir Jófríður að hægt sé að setja markið hátt. Jólaleikrit er ekkert á dagskránni en ef nemendur leiklistarvalsins hafi áhuga megi auðvitað skoða það.

Jófríður er mjög vongóð um veturinn og hlakkar mikið til komandi leiklistarárs.


Göngur og réttir

Síðustu helgar hafa verið réttir út um allt land.

Eins og vanalega er alltaf byrjað á því að fara í göngur og eru það gangnamenn sem sjá um það. Bændur þurfa oftast að útvega sér gangnamenn og senda þá heimamenn eða bara einhverja sem eru mjög áhugasamir um að fá að fara í göngur.

Oftast er gangnafólkið látið vakna um sex, hálf sjö til að fara og gera hestana klára og sig sjálft því að oft þarf að fara svo langar leiðir að það getur tekið allt að þrjá tíma að komast á áfangastað. Það getur svo tekið allt að þrjá og hálfan ef ekki fjóra tíma að komast í réttirnar með gripina eftir að þeir finnast og þá fyrst er hægt að fara að rétta.

Gangnamenn fá oftast gangnakaffi eftir að niður er komið enda eru þeir orðnir frekar svangir eftir göngurnar.

Þegar það er verið að rétta þarf að þekkja hvert mark og númer bæja er til að geta dregið kindur fyrir bæina.  Oft mætir fullt af fólki til þess að allt gangi fljótt og vel fyrir sig í réttunum.

Nú fer að styttast í að hrossaréttir hefjist í Skrapatungu og þarf ekki að fara í eins strangar göngur og í rolluréttunum en samt eru hrossin rekin og þarf að stoppa til að þau geti andað rólega.

Fjölmargir ferðamenn, innlendir og erlendir mæta í svokallaðar Túristaferðir um Laxárdalinn til að hafa gaman og kynnast íslenska hestinum betur.

Árný Dögg, 9. bekk


Vatnaskógarferð 8.bekkjar

Mánudaginn 24. ágúst fóru nemendur í 8. bekk Grunnskólans á Blönduósi í fermingarfræðslu í Vatnaskógi. Við lögðum af stað kl 8:30 frá kirkjunni og á leiðinni stoppuðum við á ýmsum stöðum til að ná í krakka t.d. á Hvammstanga, Laugarbakka, í Staðaskála og Baulu.

Þegar við komum í Vatnaskóg var okkur skipt í herbergi. Þegar það var búið fórum við á vistirnar að búa um okkur og fórum strax í hádegismat. Í hverjum hádegismat og kvöldmat áttum við að syngja borðsálm. Í matnum var okkur sagt að það kæmu fleiri krakkar  frá Vestfjörðum um kaffitímaleytið og þangað til væri frjáls tími.

 
Eftir hvern hádegismat var frjálstími og hægt að gera margt og mikið til dæmis fara í íþróttahúsið, sigla á bát ef veður leyfði, tálga í smíðahúsinu og fleira. Einnig var frjáls tími eftir kaffitíma og þá var hægt að gera það sama og fyrr um daginn en á miðvikudeginum var ekki frjáls tími. Þá átti maður að velja milli þriggja mismunandi verkefna sem voru sjálfsstyrking, sköpunarganga (skógarganga) og fræðsla um Saurbæ. Á miðvikudagskvöldið var messa í Hallgrímskirkju í Saurbæ.

Eftir kvöldmat var kvöldvaka öll kvöldin og margt var brallað þar til dæmis voru sýnd leikrit, það var sungið síðan voru messur á miðvikudeginum og fimmtudeginum.
Eftir hverja kvöldvöku var kvöldhressing og síðan var hægt að fara í kapelluna og fara síðan að sofa.

Á eftir kvöldmat á  fimmtudeginum var harmonikuball sem var rosa skemmtilegt.Á föstudeginum áttum við að ganga frá öllu því við vorum að fara heim um kaffitímaleytið.

Þegar við vorum að kveðja þá áttum við að fara í hring og taka í höndina á öllum og þakka fyrir vikuna. Á leiðinni heim stoppuðum við á sömu stöðum og á leiðinni í Vatnaskóg en núna til að skila krökkunum af okkur.

Ferðin var mjög skemmtileg og við værum alveg til í að endurtaka þetta.Birta og Dagbjört, 8.bekk         

Mentor.is er mögnuð síða!

Mentor.is er vefsíða sem hefur verið í fullri notkun hér í Grunnskólanum á Blönduósi frá því árið 2006. Þetta er vefsíða sem er notuð sem heildstætt  upplýsingakerfi til að auka upplýsingaflæði innan skólans, til foreldra og sveitarfélaga. Aðal tilgangur mentor er að auðvelda kennurum og skólastjórnendum dagleg störf. Sem dæmi má nefna skráningu í hópa og stundatöflur, skráningu á ástundun, einkunnavinnslu og skipulagningu á einstaklingsmiðuðu námi. Mentor er líka frábær leið fyrir foreldra og forráðamenn til að fylgjast með skólagönga barna sinna og skoða hvað sé á döfinni í skólanum.Á Mentor má meðal annars sjá skóladagatal skólans, stundatöflu, gamlar og nýjar einkunnir, ástundun nemenda, tilkynningar frá kennurum og skólastjórnendum og heimanám nemanda. Hægt er að sjá lista yfir bekkjarfélaga nemanda, símanúmer og heimilsföng þeirra. Einnig er listi yfir alla starfsmenn grunnskólans og netföng þeirra.

Mentor er búið að vera mjög hjálpsamur vefur fyrir t.d. unglingadeild þar sem nemendur deildarinnar fá upplýsingar um heimanámið á tölvutækuformi. Nemendur verða einna helst fúlir og reiðir ef þeir sjá ekki heimanámið sitt á Mentor og telja að það sé órituð lög að kennarar skulu setja þar inn heimanámið. Þarna fá líka nemendur upplýsingar um próf og fleira slíkt. Þetta geta foreldrarnir líka séð og þannig minnt börn sín á og fylgst með hvort þau séu að vinna heimanám og stunda námið af fullum krafti.

Margrét Ásgerður Þorsteinsdóttir  

Fróðleikur vikunnar...

Reglugerð um hundakofa Hundaeigendur í Olmsted Falls í Ohio eru skyldugir til að hafa hundakofana vatnshelda og með sjálflokanlegum dyrum!

Hjólagirðing Í þorpinu Egmont á Nýja Sjálandi er girðing gerð úr gömlum reiðhjólum.

Hvað er í matinn? Seve Ritchie er slátrari í London sem fer sínar eigin leiðir. Hann er eigandi Theobald's-kjötbúðarinnar í Clerkenwell-hverfinu og sérhæfir sig í kjöti af framandi dýrum líkt og sebrahestum, úlföldum, skröltormum, strútum og kengúrum.


Spákonufellsferð

Ferð á spákonufell 033Miðvikudaginn 2. september fór unglingadeildin í ferð uppá Spákonufell.

 

Við fórum frá skólanum og foreldrar sáu um að skutla hópnum. Við komum um tvö leytið í skíðasálann þar sem við gistum og fórum þaðan á golfvöllinn á Skagaströnd.Við lögðum af stað þaðan uppá fjallið kl. hálfþrjú.

Ferðin upp fjallið var löng og erfið en með nokkrum stoppum og sögum um Þórdísi spákonu og kindina Grákollu á leiðinni. Þegar allir voru komnir uppá toppinn var skrifað í gestabókina þar og tekin hópmynd. Síðan lá leiðin aftur niður á golfvöll.

 

SpakonufellUm sjö leytið voru allir komnir aftur í skíðaskálann og

sumir fóru í sturtu, en eftir það grillaði Berglind hamborgara og síðan voru skúffukökur í eftirrétt. Þegar allir voru orðnir saddir fórum við í leik þar sem allir þurftu að komast að því hver þeir væru með því að ganga á milli allra í hópnum og spyrja já og nei spurninga, en búið var að líma miða aftan á okkur með nöfnum á einhverjum persónum. Lilja sagði síðan söguna af Djáknanum á Myrká og draugasögu um beinagrind í kirkju.

 

Eftir það fóru allir að sofa þótt að það hafi ekki gengið vel fyrir alla því að það var allt krökkt af köngulóm í bústaðnum. En flestir voru þó sofnaðir um klukkan eitt.

 

Morguninn eftir var vaknað um klukkan níu og byrjað að taka saman dótið og þrífa skálann. Síðan komu foreldrarnir í bústaðinn klukkan ellefu til að skutla heim. Ferð á spákonufell

Þetta var skemmtileg, fróðleg og vel heppnuð ferð.  


Nýtt nemendaráð Grunnskólans á Blönduósi

Nemendaráð Grunnskólans á Blönduósi  er skipað sjö manneskjum, það eru  Margrét Hildur Hrafnkelsdóttir, Guðbjartur Sindri Vilhjálmsson og Marta Karen Vilbergsdóttir úr 10. bekk, Hjálmar Sigurðsson og Bergþóra Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir úr 9. bekk og úr 8. bekk Atli Einarsson og Hrafnhildur Una Þórðardóttir. Líka var kosið um formann og er það Margrét Hildur Hrafnkelsdóttir. 

Helgina 4 - 5. október munu svo fimm manneskjur úr nemendaráði, nemendur úr 9. og 10. bekk  halda á Sauðárkrók á landsmót SAMFÉS og koma á það nemendaráð úr öllum skólum landsins. Helgin er vel skipulögð svo krakkarnir hafi nóg að gera. Munu krakkarnir velja sér smiðju sem er hópaskipt og er allan laugardaginn, smiðjurnar eru mjög ólíkar og mikið er um að velja. Á laugardagskvöldið er svo ball og síðan gist á Sauðárkróki.

Krakkarnir hlakka mikið til helgarinnar, eru vongóðir um að læra margt áhugavert og kynnast mörgum spennandi krökkum. Sögurnar af þessum mótum lifa lengi meðal nemenda og vonandi gildir  það einnig um þetta landsmót.

Margrét Hildur Hrafnkelsdóttir


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband