Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009
Jóla hvað!
25.11.2009 | 15:13
Nú styttist óðum í jólin og víða er allt að gerast í jólaundirbúningi. Það eru þrjár vikur eftir af skólanum þangað til að skreytingadagurinn verður, í vikunni eftir það eru prófin og svo litlu jólin föstudaginn 18. desember.
Berglind íslenskukennari og Anna Margret enskukennari eru báðar byrjaðar á jólaverkefni. Berglind með svokallaða jólabók sem felur í sér verkefni bæði unnin í skólanum og heima. Búa til jólalista, jólasögu, jólakort og ýmislegt fleira. Anna Margret er með verkefni þar sem okkur er skipt í hópa 4 saman og eigum að finna hvernig jólin eru í ákveðnu enskumælandi landi, eigum við svo að búa til veggspjald og svo í lokin er kynning og spurningakeppni milli hópa.
Skreytingadagurinn er 9. desember á miðvikudegi og þá er jólaundirbúningurinn í hámarki í skólanum, krökkunum í unglingadeild er skipt í hópa og eru búnar til piparkökur, stofan skreytt, búin til jólakort og margt margt fleira.
Litlu jólin eru árlegur viðburður hjá skólanum, síðasta skóladaginn í desember og þá hittast allir bekkirnir fyrst uppí kirkju, þar er helgileikur hjá 6. bekk, svo er haldið útí íþróttahús og sungið og dansað í kringum jólatréð. Jólasveinar kíkja í heimsókn og gefa gjafir.
Eftir þetta fer hver bekkur með umsjónarkennara sínum í stofuna sína og er þá jólasaga, spjallað, borðaðar smákökur sem hver og einn kom með fyrir sig og skipst á gjöfum.
Eftir litlu jólin byrjar svo jólafríið og byrjar skólinn svo aftur 5. janúar.
Margrét Hildur, 10. bekk
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lestrarátak
25.11.2009 | 15:01
Eins og áður hefur komið fram var lestrarátak í unglingadeild 19. október til 10. nóvember.
Alls voru lesnir 135 titlar, eða 19.406 bls., og las 8. bekkur meira en helminginn af því eða 71 titil (10.131 bls.).
Bekkirnir bættu sig að meðaltali um 4.6% í lestrarhraða, en 8. bekkur bætti sig mest eða um 8.4% að meðaltali.
Hrafnhildur Una í 8. bekk bætti sig mest af öllum eða um 23%. Árný Dögg í 9. bekk bætti sig um 22%, en hún las jafnframt mest, 2370 bls.
Guðbjartur Sindri og Marta Karen bættu sig bæði um 12% og var það mesti árangur 10. bekkjar.
Sindri Rafn, 10. bekk
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um Gunnlaugs sögu ormstungu
25.11.2009 | 14:58
Nemendur þurfa að svara spurningum úr efninu og gengur örugglega öllum bara vel með það. Síðan á að skrifa nokkuð stóra ritgerð í lokin og leikgera einhvern sérstakan hluta úr sögunni. Alveg í lokin verður próf - rétt fyrir jólafrí.
Gunnlaugs saga ormstungu er hádramatísk ástarsaga og rekur mikil örlög. Aðalpersónurnar eru Gunnlaugur sjálfur, Hrafn Önundarson og Helga hin fagra.
Nær höfundur að draga upp sterka og skýra mynd af bæði Gunnlaugi og Hrafni, en minna fer fyrir Helgu. Sagan er bæði stutt og auðlesin og er talin vera með vinsælustu Íslendingasögunum.
Guðbjörg, 10. bekk
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Viðtal við Kristján Þorbjörnsson Lögregluvarðstjóra
25.11.2009 | 14:51
Það er unnið á vöktum og bakvöktum og er fyrri vaktin frá átta um morgun til sex um kvöldið og seinni frá sex um kvöldið til tólf um nóttina. Það eru sjö starfsmenn fastráðnir og fimm til sjö hérar eins og þeir eru kallaðir en þeir koma oftast um helgar þegar það eru böll og þegar að hinir þurfa frí.
Sumarstarfsmenn koma oftast í tvö til þrjú sumur. Skilyrðin fyrir því að vera sumarstarfsmaður eru þau sömu og fyrir þá sem að fara í lögregluskólann. Þau eru að maður þarf að hafa verið í tvo vetur við framhaldsnám, vera ekki brotlegur eða með hreint sakavottorð og þreyta þrekpróf og kunna bæði ensku og íslensku. Flestir falla á íslenskunni og þrekinu því það þarf að vera með mjög góða stafsetningu.
Mikilvægt er að stafsetningin sé rétt því að skýrslurnar fara út um allt og er það ekki mjög gaman fyrir lögreglumanninn sem skrifaði skýrsluna að það séu margar stafsetningarvillur og þá gæti verið að stafsetning lögreglumannsins valdi því að málið er ekki talið halda vatni og því ákæran felld niður.
Lögregluskólinn er svipaður venjulegum framhaldsskóla, nema það þarf að vera fróður um lög og reglur. Það sem að skólinn fer fram á er Handbók fyrir lögreglumenn og líkamsæfingar.
Hver dagur hjá lögreglunni er engum líkur, þeir ákveða til dæmis hvað á að gera næsta dag daginn áður og kannski þarf það að breytast eitthvað. Þeir hafa góð samskipti við unglinga á svæðinu og halda stundum fyrirlestra fyrir þá.
Við tókum eftir því að það er kominn nýr bíll eða nýr fyrir þá því að þeir fengu hann hjá öðrum bæ. Við spurðumst aðeins fyrir um hann. Hann kom fyrir nokkru síðan frá annarri lögreglustöð eins og var getið fyrr í textanum og er bíllinn jeppi. Þessi jeppi kom því einn af bílunum þeirra skemmdist við svaðalegar hamfarir, ef svo má að orði komast, á Skagaströnd fyrir stuttu.
Margrét Ásgerður, 10. bekk og Árný Dögg, 9. bekk
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fjáraflanir 10. bekkjar
25.11.2009 | 14:42
Næst á döfinni hjá tíundu bekkingum er að halda bingó sem fyrst, selja friðarkerti, jólakort frá blindrafélaginu og líklega heimabakaðar smákökur. Við viljum biðja fólk að vera með hlýjar móttökur og jákvæðni í að styrkja bekkinn fyrir lokaferðina sína.
Krakkarnir eru einnig að þrífa Skjólið sem er félagsmiðstöðin á Blönduósi, þeir gera það í allan vetur og fá að launum 100.000 kr. í sjóðinn sinn. Þeir sjá líka um mjólkursöluna í skólanum og reka sjoppu í Skjólinu og gengur allt vel í þeim málum.
Vorferðin er stór þáttur í að ljúka námi í grunnskólanum og ákveðin hefð hefur skapast fyrir miklar ævintýraferðir innanlands. Lokaferðin þeirra stendur yfir í 4 daga á vordögunum og fara þeir t.d. í Adrenaline garðinn og rafting, gista í bústöðum.
Búið er að skipuleggja ferðina í grófum dráttum en engin ferð er eins og sú sem var árið áður. Eru tíundu bekkingar að miða ferðina sína við þá sem var farin síðasta vor en gerðar verða einhverjar breytingar þó og bæta þeir líklegast einhverju við sem þeir óska sérstaklega eftir.
Góð dæmi eru paintball og lazertag og sleppa þeir í staðinn líklegast hestaferð og ferð út í Flatey sem tengdist fjölskyldutengslum 10. bekks ársins áður. Veiðisafnið er líka ein hugmynd að viðkomustað í ferðinni önnur hugmynd er hellaskoðun og margt, margt fleira.
Sindri Rafn og Margrét Ásgerður, 10. bekk
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðventudagur í skólanum
25.11.2009 | 14:41
Tónlistaratriði voru klukkan tvö og voru það nemendur úr Tónlistarskóla A-Hún sem sáu um þau, nutu þeir aðstoðar Skarphéðins Einarssonar sem lék undir. Einnig var 10. bekkur með kaffisölu og heppnaðist hún vel. Boðið var uppá kaffi, kakó og svala, kökur og kleinur. Einnig voru seld friðarkerti.
Heppnaðist dagurinn vel og allir fóru heim með bros á vör.
Árný Dögg, 9.bekk
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsókn frá Blindrafélaginu
17.11.2009 | 14:43
Á mánudaginn fengum við skemmtilega heimsókn í skólann frá Blindrafélaginu. Þaðan kom hann Bergvin Oddsson sem er blindur, með honum voru konan hans og sonur sem þau eignuðust fyrir átta mánuðum.
Bergvin missti sjónina við það að hann fékk Herpes í augun og þá hann var búinn með níunda bekk. Sjónin á vinstra auga fór árið 1999 en því hægra árið 2001. Í dag hefur hann aðeins 2% sjón og telst til blindra.
Þeir sem eru með 10 - 40% sjón eru taldir sjónskertir, en þeir sem eru með minna en 10% eru blindir.
Meðal þeirra spurninga sem hann var spurður voru: ,,Er þér treyst til að vera einn heima?'' og ,,hvernig er að vera á veitingastöðum?''. Bergvin hló að þeim og þeirri fyrri svaraði hann þannig að hann væri nú bara fullorðinn maður, og þeirri seinni sagði hann að það væri nú ekki það oft sem þau færu út á veitingastaði en heima hjá sér væri matnum oftast raðað á diskinn í svo kallaða klukku, það er þannig að þá er kjötið til dæmis klukkan 12, grænmetið klukkan 3 og kartöflurnar klukkan 6. Svoleiðis borðar hann þá ekki bara grænmeti af disknum eða bara kjöt. Bergvin sagði okkur margt um það hvernig það er að vera blindur og útskýrði það allt vel fyrir okkur nemendum úr sjöunda til tíunda bekk.
Okkur fannst mjög gaman að fá svona heimsókn og spjölluðum mikið við hann.
Íris Emma, 9. bekk
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Undankeppni í Stíl 2009
17.11.2009 | 14:33
Þann 16 . nóvember var undankeppni Stíls haldin í Skjólinu. Það voru tvö lið að keppa, í öðru liðinu voru Steinunn Agnes (módel) og Halla Steinunn, báðar í 8. bekk og í hinu liðinu voru Guðbjartur (módel) og Margrét Ásgerður.
Fötin hjá Steinunni og Höllu voru svartur kjóll með borða sem var með bjórdósum á, síðan var hún í grænum leggings og með gostappahálsmen. Hárgreiðslan var snúður með bréfblómi á.
Fötin hjá Guðbjarti og Margréti voru rauðar og svartar gallabuxur, hlýrabolur og ruslapokavesti.
Sigurliðið var Steinunn og Halla en þær fara til Reykjavíkur og keppa við aðrar félagsmiðstöðvar. Keppnin mun fara fram í Vetrargarðinum í Smáralindinni laugardaginn 21. nóvember næst komandi.
Dagbjört og Birta 8.b
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Æskulýðsball í Borgarnesi
17.11.2009 | 14:23

Leynigestur kvöldsins var svo Auðunn Blöndal sem kom og talaði meðal annars um hvernig ætti að láta á fyrsta stefnumóti, svo var hann með ógeðsdrykk sem þrír hugrakkir jaxlar úr hópnum drukku og fleira. Í verðlaun var notaður Wipe-out bolur og allir skemmtu sér vel.
Klukkan 21:00 steig svo hljómsveitin Buff á svið og skemmti öllum til 22:30. Eftir ballið var búið að útbúa pizzur í Hyrnunni til að borða eftir ballið - svo það var borðað og haldið heim.
Ferðin heppnaðist vel og skemmtu allir sér mjög vel. Ferðin var í miðri viku svo það var skóli á föstudaginn sem allir mættu í frekar þreyttir en mjög sælir.
Margrét Hildur, 10. bekk
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frjálsar íþróttir
10.11.2009 | 15:01
Margt og mikið er gert á æfingunum, til dæmis farið í hástökk, langstökk, grindahlaup, kúluvarp og margt fleira. Sunna Gestsdóttir þjálfar krakkana en hún keppti sjálf í frjálsum og gekk afar vel í því. Hægt verður að keppa í einhverjum mótum í vetur en ekki er vitað hvaða, en vonandi taka sem flestir þátt í þessum viðburðum.
Óvenju margir hafa verið að mæta á æfingarnar eða um það bil 20 krakkar og vonandi halda þessir krakkar áfram í vetur.
Dagbjört Henný Ívarsdóttir, 8.bekk
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)