Hugleiðingar
20.10.2009 | 14:54
Þú finnur þig oftast í einni ef ekki fleiri af greinunum sem eru kenndar og leiðir það þig vonandi út í það framhaldsnám sem hentar þér eða það sem þitt draumstarf krefst. En hvað er það spyr ég?
Það er að segja að mér finnst vanta útskýringar á því hvaða nám það er sem krafist er að maður læri til að geta sinnt draumastarfinu? Er hægt að fara mismunandi leiðir í náminu? Er eitthvað sem er betra að læra einnig en er ekki skylda að læra? Hvaða framhaldsnámsbrautir fara vel saman útaf fyrirhuguðu starfi?
Þetta er eitthvað sem er ekki útskýrt og það kemur enginn til þín og segir þér hvað hann lærði, hefur starfað við og hvort hann starfi við það sem hann lærði. Við fáum kynningu á framhaldsskólum og námsbrautum sem í boði eru en þó vantar okkur reynslusögur og fá að kynnast betur störfunum sem eru í boði. Hægt væri að halda svo kallaðan career-day" eða með öðrum orðum starfskynningar-dag.
Þessi starfskynningar-dagur gæti verið árlegur viðburður. Frekar á vorönn en haustönn og gætu þá einstaklingar úr bæjarfélaginu komið og kynnt störf sín fyrir tíunda bekk eða allri unglingadeildinni. Sagt frá náminu sem þeir hafa lokið, áhugaverðum störfum og vinnustöðum, hvað hafi verið hugmynd þeirra upphaflega og hvernig þær hugmyndir þróuðust eða jafn vel breyttust.
Þetta eru hlutir sem enginn segir þér frá. Þetta er eitthvað sem þú þarft að spyrja sjálfur um. Þú þarf að leita að upplýsingum, en hvar skal byrja, hvert skal leita, hvar færðu yfir höfuð upplýsingar? Mér sýnist að það sé ekkert og enginn sem segir þér hvaða braut eða jafnvel brautir þú getur nýtt þér best til að nálgast þitt draumastarf. Eða hvar þín draumabraut endar, hvað þú getur starfað við að henni lokinni. Okkur er heldur ekki sagt hvaða starf gæti hentað hæfileikum eða persónuleika hvers og eins.
Ég skora hér með á grunnskólana hér í Húnvatnssýslu, og jafnvel víðar, að slá saman í svona viðburð og kynna fyrir nemendum það sem lífið hefur upp á að bjóða og hvernig maður getur komist þangað sem hugurinn leitar.
Margrét Ásgerður,10. bekk
Athugasemdir
Margrét Ásgerður
Það er mjög jákvætt að sjá það að nemendur séu farnir að velta því alvarlega fyrir sér hvað taki við eftir að grunnskólanum lýkur. Hins vegar þykir mér það dapurlegt ef mér hefur mistekist einhver af markmiðum mínum í lífsleiknikennslunni.
Þú talar um að það væri áhugavert að hafa sérstakan starfskynningardag þar sem nemendur gætu fræðst um það hjá fólki sem kæmi í skólann hvernig námi þeir hefðu lokið, áhugaverðum störfum og vinnustöðum, hvað hafi verið hugmynd þeirra upphaflega og hvernig þær hugmyndir þróuðust eða jafn vel breyttust.
Þetta er mjög góð hugmynd en mig langar að bera undir þig aðra hugmynd. Hvernig litist þér á að nemendur veldu sér sjálfir starf sem þeir hefðu áhuga á. Tækju viðtal við einhvern sem starfaði við það og spyrði einmitt þessarra spurninga. Síðan gæti viðkomandi nemandi kynnt þetta starf og þau svör sem sem hann fékk varðandi námið fyrir bekkjarfélögunum (kannski búið til bækling um starfið).
Að mínu mati hefur þessi aðferð þann kost fram yfir hina að ef þið þurfið að kynna starfið og námsleiðirnar fyrir öðrum þá eruð þið virkari en ef þið sitjið bara og hlustið á fyrirlestra frá fólki sem einhver annar hefur ákveðið að væru áhugaverðir.
Mín aðferð (sem ég lagði reyndar upp með 9. bekk í fyrra) hefur samt þann ókost að ef nemendur eru áhugalausir um verkefnið velja þeir sér kanski störf sem þeir eru nú þegar að sinna (með námi) og sem krefjast engrar sérstakrar menntunar. Þetta gerir það að verkum að nemendur læra minna af verkefninu. Við getum svo alltaf rökrætt um það hvort ég ætti kannski að setja einhver skilyrði fyrir því hvaða starf nemendur velja að kynna.
Önnur hugmynd sem ég hef um starfskynningar sem gengur mun styttra en þessar tvær er að nemendur velji sér starf og kynni sér það á netinu. Að nemendur reyni að svara þessum sömu spurningum með því að leita þar að upplýsingum um starfið t.d. á http://www.idan.is/nam-og-storf þar sem meðal annars eru viðtöl við fólk sem starfar við iðngreinar. Þetta held ég að ég hafi örugglega látið ykkur gera í 8. bekk. Þessi aðferð hefur sama ókost og hin sem er sá að það sem nemendur læra af verkefninu byggist á áhuga þeirra á verkefninu.
Þriðja hugmyndin mín er sú að láta ykkur kynna ykkur á netinu hvaða störf eru í boði. Velja sér auglýsingu. Kynna sér í hverju það felst, hvaða menntunar það krefst og æfa síg síðan í því að sækja um starf, því að það er eitthvað sem þið eigið eftir að þurfa að gera.
Margrét Ásgerður,
Við erum öll ólík og lærum á mismunandi hátt eins og þú veist. Þess vegna er ég mjög glöð með að fá gagnrýni á kennsluna og vil gjarnan fá fleiri hugmyndir frá þér og fleirum, um hvaða aðferðir þið teljið að virki best í kennslunni.
Kveðja Jófríður
Jófríður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 23:15
Alltaf gaman að lesa það sem hér fer fram. En þar sem þessi umræða byrjaði með spjalli hjá mér og Margréti þá vildi ég bara segja að við vorum að ræða um kokkinn, sem Margrét hefur heilmikinn áhuga á að læra, og ég var að benda henni á fleiri störf tengd mat og matvælaiðnaði þar sem hún hefur áhuga á að læra meira en bara kokkinn. Ég benti henni á að Árný Þóra Árnadóttir væri matvælafræðingur og þar væru möguleikar á annarskonar aðkomu að matvælaiðnaði og í framhaldi af því sagði ég henni að Árný væri örugglega tilbúin til að fræða hana um það hvernig hennar námi var háttað og hvaða starfsmöguleikar feldust í þessu. Henni fannst þetta mjög góð hugmynd og út frá því skrifaði hún þessa grein (sem ég vissi reyndar ekki af fyrr en hér á netinu). En annars held ég að hún sé ekkí að gagnrýna kennsluna, hún fékk þarna þá hugmynd að hún gæti kynnst fleiri störfum á annan hátt en hún hefur áður kynnst og ákvað af því tilefni að skrifa þessa grein.
kv. Hrefna
Hrefna Aradóttir (IP-tala skráð) 21.10.2009 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.