Íþróttadagurinn 2009
29.9.2009 | 14:49
Íþróttadagurinn var haldinn fimmtudaginn 24. september og byrjaði dagurinn eins og venjulega á Norræna skólahlaupinu. Þar var hlaupið, skokkað eða gengið 2,5 km en svo var óvenjustór hópur nemenda sem ákvað að hlaupa 5 km en það er í boði fyrir nemendur í 5. bekk og eldri.
Eftir það var svo haldið út í íþróttahús þar sem dagskráin var örlítið öðruvísi en venjulega þar sem menntamálaráðherra var að koma í heimsókn. Þannig að byrjað var á kappleikjum á milli bekkja. 1. og 2., og 3. og 4.bekkur kepptu í þrautaboðhlaupi. 5.-7. bekkur kepptu í leiknum "Dodgeball" en það er ein útgáfa af skotaboltaleik með tveimur liðum. 8.-10. bekkur áttust einnig við í þessum leik. Þótti það heldur einkennandi að yngri bekkur skildi vinna þann eldri í öllum þessum leikjum.
Það átti einnig við um viðureign kennaranna á móti tíundu bekkingum í blaki. Máttu kennararnir sitja eftir með sárt ennið eftir að tíundu bekkingar unnu þá 17-21 í æsispennandi leik. Allir nemendur skólans tóku þátt í deginum á einn eða annan hátt og var mikil gleði í gangi.
Þegar þessu öllu var lokið var hafist handa við að setja upp alls kyns stöðvar og gat hver og einn fundið eitthvað við sitt hæfi. Hægt var að fara í klifur, keilu, keppast um hver gæti flogið pappírsskutlu lengst, uppstökkskeppni, pílukast, vítaskot í körfubolta, boccia og einnig var hin sívinsæla fitnessbraut en hún var einungis ætluð 5. bekk og upp úr.
Menntamálaráðherra kom svo klukkan rúmlega ellefu ásamt fylgdarliði frá samtökunum Heimili og skóli og starfsmönnum úr Menntamálaráðuneytinu. Þá mættu þarna líka fræðslustjóri, bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar og fleiri.
Gekk hópurinn um á milli stöðvanna og fékk stutta kynningu á því hvað var í gangi á hverjum stað. Átti þessi hópur svo fund með skólastjórnendum og fræðslustjóra í Kvennaskólanum. Þar var verkefnið Tökum saman höndum", sem í vor fékk verðlaun Heimila og skóla, kynnt og fengu gestirnir að spyrja þau spjörunum úr um verkefnið.
Samkvæmt Sigríði aðstoðarskólastjóra voru gestirnir mjög áhugasamir og forvitnir um verkefnið.
Var þetta því í alla staði hinn ágætasti dagur.
Margrét Ásgerður 10.bekk
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.