Skólahreystival í Body Pump tíma

Skólahreysti21. nóvember datt nokkrum drengjum í skólahreysti að fá Berglindi kennara og Body Pump þjálfara að koma og kenna einn tíma, því það er góð æfing og styrkir þol og vöðva.

Þessi hugmynd var framkvæmd og vil ég benda á myndasíðu skólans þar sem hægt er að sjá myndir frá þessu og horfa á stutt myndaband http://picasaweb.google.com/grunnblond ásamt fleiri myndum úr skólalífinu.

Berglind stýrði sömu æfingum og konurnar fá tvisvar í viku og gekk misvel hjá hópnum að framkvæma þær.

Skólahreysti IIStrákarnir voru nú í byrjun nokkuð vissir um að þetta væri bara fyrir kellingar og ekkert mál en þeim skjátlaðist svo sannarlega. Eftir að hafa verið að gera æfingar stanslaust eftir tíu lög og bara stutt pása á milli voru lærin farin að titra og svitinn rann niður andlitið.

Margrét Hildur Hrafnkelsdóttir


Rauði krossinn í 6. bekk

Þriðjudaginn 2. desember kom Rauði krossinn og kíkti á 6. bekk.

Einar Óli Fossdal og Hafdís Vilhjálmsdóttir komu og fræddu þau nemendurna um starfsemina, starfsfólkið og margt fleira sem tengist Rauða krossinum.

Einnig var sagt frá ferð einni til Sviss sem aðilar frá Rauða krossinum fóru í.

Svo var líka aðalmálið að fá að kíkja inn í sjúkrabílinn, þar inni var margt merkilegt að sjá t.d. hjartastuðtæki, súrefnisgrímur og margt fleira.

Það sem vakti mikla athygli krakkanna var bangsi sem sinnir því hlutverki að róa niður yngri börnin.

Margrét Ásgerður og Elísabet Kristín

 

 

 

 

 


Óvenjulegur skóladagur

Í dag fimmtudaginn 11. desember var frekar óvenjulegur dagur því í löngu frímínútum fór rafmagnið af öllum bænum.

Ég var á sparkvellinum ásamt mörgum öðrum krökkum, flestum úr unglingadeildinni, allt í einu slokknuðu öll ljós í bænum. Okkur brá öllum og nokkrir öskruðu mikið og urðu hræddir. Allt í einu heyrum við einhvern öskra að allir ættu að fara í íþróttahúsið og hlupu allir af stað. Þegar við voru komin í salinn kom Sigga aðstoðaskólastjóri og spurði hvað í ósköpunum við værum að gera þarna í salnum, það hefði enginn fullorðinn sagt að við ættum að fara þangað.

Við mótmæltum auðvitað og sögðum að einhver skólaliði hefði kallað þetta, en þá hafði bara einhver krakki gargað þetta í einhverju kasti.

Þegar þessi misskilningur var leiðréttur áttu allir að fara í sínar stofur og á leiðinni þangað kom rafmagnið aftur á. Tók smá tíma að koma öllum krökkunum til að fara að læra því margir urðu hræddir og var dálítil spenna í gangi meðal krakkana því rafmagnið fór í það minnsta í tvígang aftur af efri hæð nýja skóla.

Þessi dagur kom mjög mikið á óvart því þetta var frekar spennandi og rafmagnið fór af öllum bænum.

Elín Hulda Harðardóttir


Heimsókn í 3. bekk

Í lok nóvember var 3. bekkur Grunnskólans á Blönduósi aldeilis heppinn þegar Brunavarnir A-Hún komu og kynntu fyrir bekknum hvernig koma mætti í veg fyrir bruna á heimilum.

Þeir Andrés Leifsson (brunavarnarstjóri) og Hilmar Frímannsson (aðstoða brunavarnastjóri) komu og sýndu nemendum bekkjarins eldvarnarteppi, reykskynjara og fleira, þar á meðal myndband um hvernig ekki ætti að fara með eldinn.

Nemendur bekkjarins sýndu mikinn áhuga og eru nú allfróð um hættuna sem oft fylgir eldinum.

Við töluðum við Helgu Maríu Ingimundardóttur og Bergsvein Snæ Guðrúnarsson og þau fræddu okkur vel um það sem þau lærðu. „Þeir sögðu okkur að nota eldteppi á potta og eldavélar" sagði Helga María „og við megum ekki setja kerti hjá hlutum sem getur kviknað í" bætti Bergsveinn við.

 

Guðlaug Ingibjörg og Kristinn Justiniano


Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í mörgum bekkjum skólans á mánudaginn 17. nóv. þótt hann hafi verið sunnudaginn 16. nóv.

Í elstu bekkjunum var „stafsetning við tónlist", í því verkefni var spilað lag og fengu nemendur texta fyrir framan sig sem var búið var að taka nokkur orð úr textanum og áttu nemendur að skrifa réttu orðin inn í eyðurnar þegar þeir heyrðu lagið.

 Í 6. bekk fóru krakkarnir í nýyrðasamkeppni á netinu, en þar áttu þau að búa til ný íslensk orð um alls kyns hluti.

Í 4. bekk  bjuggu nemendur til mannlýsingar og svo áttu krakkarnir að leika mannalýsingarnar.

Vafalaust hafa allir bekkirnir gert eitthvað spennandi í tilefni dagsins og haft gott og gaman af.

Elín Hulda Harðardóttir


Skreytingardagur

Jólakassi 10. bekkjar 001Haldinn var skreytingadagur í skólanum þann 4. desember sl.

Á skreytingadögum hér í skólanum skreyta allir bekkir stofur sínar og margir bekkir vinna skemmtileg verkefni saman.

Hjá unglingunum hófst dagurinn á þvi að bekkirnir skreyttu hjá sér stofurnar, skreyttu piparkökuhús og bjuggu til jólakortakassa.

10. bekkur gerði blokkarkassa sem sjá má á myndinni og að auki glymur tónlist frá honum um ganginn.

Eftir þetta var hópavinna. Bekkjunum var skipt í tvo hópa. Þá var hægt að baka piparkökur, búa til jólakort, föndra, búa til alls konar dót hjá Önnu Margreti, t.d. að búa til jólakarla og sauma.

Í lok dagsins voru girnilegu piparkökurnar skreyttar.

Guðbjörg Þorleifsd.


Hvar eru þau núna? Magdalena Berglind Björnsdóttir

Berglind og náttúrufræði í 6. bekk 003Við komum inn á heimili Magdalenu Berglindar þann 1. október og við spurðum hana nokkurra spurninga út í hennar skólagöngu í Grunnskólanum á Blönduósi. Og var hún svo indæl að svara þeim.

Haustið '78 hófst skólaganga Berglindar og umsjónarkennari hennar var Silla Hermanns. En hún man þó nokkuð eftir fleiri kennurum en þeir voru Björn Kristjánsson, Þórður Páls, Ingunn Gísla og Arnór Árnason. Svo voru líka íþróttakennararnir, en þeir voru í miklu uppáhaldi ásamt Sillu Hermanns, Indriði Jósafatsson, Guðjón Rúnarsson og svo seinna Þórhalla Guðbjartsdóttir, núverandi skólastjóri, en hún kenndi einnig vélritun. Skólastjóri var Björn Sigurbjörnsson og svo seinna Eiríkur Jónsson. Nemendurnir voru svo eitthvað um 240 en hún er ekki alveg viss um það. Sjálf var Berglind með 33 nemendum í bekk til að byrja með. En vegna mikils fjölda var þeim skipt í tvo hópa, „iddara" og „úddara". Þ.e.a.s. þeir sem bjuggu fyrir innan á eða utan og var bekknum tvískipt þangað til í 6. bekk, þá voru þau um 25.

Við spjöllum svo aðeins meira og spyrjum þá um breytingar og fengum nokkur svör. Þegar hún var í skóla þá voru nemendur líklega ekkert ákveðnir á því að breyta einhverju. Hlutirnir voru bara svona að það var ekkert pælt meira í því. En þau voru samt svolítið öfundsjúk út í nemendur Húnavallaskóla fyrir stóru og góðu íþróttaaðstöðuna sem þeir voru með. Og svo nefndi hún líka að síðasta árið í skólanum byrjaði bekkurinn hennar að breyta efri hæð félagsheimilisins í núverandi félagsmiðstöðina, Skjólið.

Berglind og nokkrir bekkjarfélagar hennar hafa haldið hópinn og eru með bloggsíðu til að vera í sambandi þar sem einn af bekkjarfélögunum er fluttur til Danmerkur og hinir í Reykjavík. En var hún nokkuð náin Lindu Rut, Svandísi, Hallbirni, Magga, Böðvari og Ágústi. Hittast þessi vinir einu sinni í mánuði á hádeginu og snæða saman í Reykjavík. Þegar Berglind er í bænum þá er stundum reynt að skipuleggja matinn svo hún geti mætt.

Þar sem Berglind er nú kennari þá veit hún mikið um hvernig skólastarfið hefur breyst sem það vissulega hefur. Það er meðal annars fjölbreyttari kennsla og mikið samstarf á milli bekkja. Einnig eru fjölbreyttari tæki; skjávarpar, tölvur og svo framvegis. En hún man eftir að það var bara myndvarpi þegar hún var í skólanum. Núna eru líka skólabækur miklu meira aðlaðandi, með mörgum myndum og yfirleitt litskrúðugar.

Mikið var líka íþróttalífið meðan Berglind stundaði námið. Það var sund, fótbolti, karfa og júdó í svolítinn tíma. Mjög virkt íþróttalíf, eins og það er enn, en núna eru hins vegar færri valkostir.

Eftir grunnskólann fór Berglind til Bandaríkjanna sem skiptinemi. Svo þegar hún kom heim fór hún í menntaskólann við Sund. Hún tók sér svo pásu í eitt ár en fór svo í íþróttakennaranám. Og er hún núna í fjarnámi í Kennaraháskólanum. Elsti sonur hennar stefnir á að verða íþróttakennari eins og mamma sín. Eldri stelpan hefur þó ekki ákveðið sig en sú yngri er staðráðin í því að verða hárgreiðslukona. Berglind bætir við að það hafi hún líka ætlað þegar hún var yngri.

Margrét Ásgerður og Elín Hulda

 

 


Stíll 2008

máþÞann 22. nóvember síðastliðinn kepptu um 60 félagsmiðstöðvar um sæti í fata-, förðunar- og hárgreiðsluhönnun Stíls. Stíll er keppni á vegum SAMFÉS, en það er Samband íslenskra félagsmiðsöðva. Ákveðið var að þema keppninnar í ár væri framtíðin og þurftu þátttakendur því að hanna fatnað innan siðferðislegra marka sem hæfðu hugtakinu framtíð.

Þar sem hugtakið er mjög vítt var margt sem kom til greina þegar ljóst var að þemað væri þetta, urðu búningar mismunandi og hugmyndir og rök fjölbreytt.

Skjólið, félagsmiðstöðin á Blönduósi, sendi frá sér tvo keppendur sem stóðu saman í einu liði. Keppendurnir voru Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Margrét Ásgerður Þorsteinsdóttir.

Hugsunin á bak við hönnun þeirra var að tíminn gengur alltaf í hringi. Kjóllinn var því gerður  í stíl Viktoríutímans þar sem lögð var áhersla stíllá stundaglasalögun kvenna og átti því módelið (Margrét) að minna á stundaglas. Pallíettur voru settar framan á kjólinn og þær táknuðu líðandi tímann. Förðunin var unnin við sama hugtak en þar var festur rennilás yfir annað augað og átti hann að tákna komandi tíma að opnast fyrir sjónum manns. Greiðslan var einfaldari en annað og var aðeins túberuð upp að framan og sléttaðir endarnir en þar var hugsað til baka um 1940-1960.

Fulltrúum Skjólsins gekk mjög vel í aðalkeppninni þrátt fyrir að hafna ekki í neinu verðlaunasæti. En þess má geta að þrjár félagsmiðstöðvar af Norðurlandi fengu verðlaun. Félagsmiðstöðin Friður frá Sauðárkróki fékk verðlaun fyrir bestu förðun, Óríó frá Hvammstanga hafnaði í 5. sæti fyrir hönnun og Æskó frá Siglufirði í 4. Sæti, einnig fyrir hönnun en Félagsmiðstöðin Garðalind sigraði keppnina í ár með framúrskarandi hönnun.

Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir


Aðventudagur

Aðventudagurinn verður haldinn sunnudaginn 23. nóvember kl: 13:00 - 16:00.

Sjórn foreldrafélags grunnskólans stendur fyrir þessu og taka nú hefbundið forskot á aðventusæluna. Á staðnum verður hægt að kaupa alls konar hluti eins og venjulega t.d. föndur, jólaskraut og piparkökur sem síðan er hægt að skeyta á staðnum.

Fyrir þá sem eru ekki í föndurstuði eru spil á staðnum. Tónlistarskólinn verður með tónlistaratriði og 10. bekkur með kaffisölu til fjáröflunar.

Þetta er skemmtileg skemmtun fyrir alla og eru allir beðnir um að koma; ömmur, afar og önnur viðhengi og hafa ánægulegan aðventudag.

Allir eru vinsamlegast beðnir um að mæta með skæri og límstifti.

Guðbjörg Þorleifsdóttir


Hvað finnst börnunum um lestrarvini?

Skóladagheimili og bangsadagur 033Nú eru lestrarvinir snúnir aftur og vaknaði þess vegna forvitni okkar hvernig börnunum líkaði við verkefnið því er bara búið að spyrja hvað unglingunum finnist.

Við fjölmiðlavalið lögðum í leiðangur og spurðum nokkur börn í fyrsta, öðrum og þriðja bekk hvað þeim fyndist og voru öll eða alla vega meirihlutinn mjög jákvæð og var svarið einfalt:  Bara skemmtilegt.

Skóladagheimili og bangsadagur 032Krakkarnir sem við spurðum voru: Helga María, Sylvía, Harpa og Ingibjörg í 3.bekk. Una, Hreinn og Vala í öðrum bekk og svo Pétur Ari, Helga Björg, Andri, Matthías og Weronika úr 1. bekk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband